Manor

View Original

Verð lögfræðiþjónustu: 7.000 - 38.000

Í hverjum mánuði streymir mikill fjöldi tíma og uppgjöra í gegnum tímaskráningarkerfi Manor sem við höfum sérhannað fyrir íslenska lögmenn. Við gerðum nýlega athugun á söluverði tíma hjá okkar viðskiptavinum og kom þar margt í ljós. Athugun var gerð á gögnum að fengnu leyfi viðskiptavina og voru þeir svo til viðbótar beðnir að lýsa verðmyndun á stofum sínum.

Hér eru helstu niðurstöður.

Ódýrustu tímarnir voru í stórum verkefnum þar sem hörð samkeppni er á milli lögfræðistofa. Sáum við þar tímagjald detta svo lágt sem 7.000 kr/klst.

Næst ódýrustu tímarnir voru í opinberum málum og/eða þar sem ríkið eða stofnanir voru greiðendur en þar var verð um 10.000 kr/klst.

Meðalverð útseldra tíma er um 19.500 kr/klst. Á hverri stofu eru kjör viðskiptavina breytileg eftir því hver vinnur vinnuna, umfangi málsins, hagsmunum í húfi, verðskipulagi o.fl.

Hæsta verð í hefðbundinni útseldri vinnu var um 38.000 kr/klst.

Í öllum tilvikum sem athuguð voru upplýstu lögmenn viðskiptavini sína um verð áður en viðskipti hófust. Þeir sem hæst verð rukkuðu sögðust hafa byggt upp það á löngum ferli og að sínir viðskiptavinir væru að mestu fastir viðskiptavinir sem hefðu mikla hagsmuni.

Það skal einnig tekið fram að dæmi eru um lægra og hærra tímagjald en að ofan greinir í sérstökum tilvikum. Þau dæmi eru þó ekki lýsandi fyrir heildina og eru því ekki nefnd sérstaklega.

Ps. Því má svo við bæta, fyrir þá sem ekki þekkja rekstur lögmanna, að tímagjald útseldrar vinnu tekur til allra þátta í rekstrinum. Með því gjaldi eru greidd laun lögmanns, laun ritara, laun bókara, húsaleigu-, orku-, tölvu-, net- og prentkostnaður og svo mætti lengi telja.