Manor

View Original

Ólíkar leiðir í sölu lögfræðiþjónustu

Við höfum séð margar leiðir til þess að verðleggja lögfræðiþjónustu. Algengast er að rukka fyrir hverja vinnustund en nýjar aðferðir hafa síðustu árin aukist í vinsældum. Hér eru nokkrar aðferðir sem okkar notendur beita við verðlagningu.

Seldir tímar

Að þeir tímar sem fóru í tiltekið mál séu rukkaðir á mánaðarlegum grunni er langsamlega vinsælasta leiðin meðal íslenskra lögmanna. Þetta tíðkast í málum þar sem mikil óvissa er um umfang og viðskiptavinur treystir á tímaskráningu lögmanns. Miklu skiptir hér að upplýsa viðskiptavininn um kostnað við vinnu.

Fast verð á verk

Þessi nálgun tíðkast í stærri verkefnum á borð við t.d. áreiðanleikakannanir þar sem verkefnið er vel afmarkað, skilgreint í upphafi verksins og svo samið um fast verð. Lögmaður hefur þá í hendi sinni að mynda hagnað með því að vera sneggri eða skilvirkari í störfum sínum.

Hagsmunatengd þóknun

Sú nálgun tíðkast þegar unnið er að stórum samningum eða umsýslu með stærri eignir. Samið er um að lögmaður annist t.d. alla lögfræðilega þætti viðræðna og samningsgerðar fyrir annan eða báða aðila gegn hlutfalli af verðmæti samnings.

Áskrift

Að selja lögmannsþjónustu í formi áskriftar tíðkast í litlum mæli þar sem aðilar sem þurfa reglulega á lögmannsþjónustu að halda gera samkomulag um fastar mánaðargreiðslur og eiga þá inni aðgang að lögmanni í tiltekinn tíma. Þetta tryggir fyrirtækinu jafnan kostnað á milli mánaða og eykur líkur á að viðskiptavinur nýti sér þjónustuna við hefðbundin rekstrarmál svo sem ráðningarsamninga o.þ.h.

Vörusala

Hér er átt við það þegar lögmaður selur t.d. skjalagerð, úrvinnslu máls, dánarbússkipti, kaupmálagerð eða annað á föstu verði. Lögmaður getur þá unnið að undirbúningi slíkra atriða og náð mikilli hagkvæmni í afgreiðslu þeirra. Þá er skynsamlegt að búa til vörur og selja á föstu verði.

Flestir lögmenn blanda ofangreindum atriðum í rekstrinum og móta þjónustu sína og vöruframboð að viðskiptavinum sínum. Lykilatriði í því að hámarka tekjur er að átta sig á þörfum viðskiptavinanna.