Manor

View Original

Móttaka nýrra viðskiptavina

Það skiptir lögmenn miklu máli að taka rétt á móti nýjum viðskiptavinum hvað viðskiptahlið mála varðar. Eftir að búið er að hlusta á málavexti og ræða stöðu málsins er gott að enda fyrsta fund á því að ræða um formsatriði svo sem verð, vinnulag og feril málsins. Hér eru nokkrir punktar um hvað skiptir mestu máli þegar þú hittir nýjan viðskiptavin.

Útskýrðu virði þjónustunnar

Það eru ekki allir sem skilja hvað lögfræðingar gera og hvernig þeir búa til verðmæti. Útskýrðu hvaða verðmæti eru í húfi, hvaða verðmæti þú ert að reyna að skapa eða varðveita og hvers vegna það sé þess virði að vinna að málinu.

Segðu frá tækni sem stofan notar

Ef þú notar Manor segðu viðskiptavininum frá því hvernig þú heldur utan um öll mál, öll gögn, mætingar, dóma og hversu nákvæm öll tímaskráning er. Virði þjónustunnar eykst í huga viðskiptavinarins þegar hann heyrir að þú sért með bestu verkfærin til viðbótar við lögfræðilega þekkingu.

Segðu frá hagræði

Ef þú hefur útbúið stöðluð skjöl sem þú nýtir fyrir viðskiptavin án þess að hann greiði sértaklega fyrir vinnu við gerð skjalsins eða notar vinnusparandi hugbúnað án þess að rukka aukalega - vertu þá viss um að segja viðskiptavini frá því svo að hann átti sig á því að það sé kaupbætir í viðskiptunum.

Sýndu aðstöðuna

Það er gott að fara með viðskiptavin stuttlega um stofuna, sýna honum aðstöðuna og kynna hann fyrir öðrum lögmönnum, aðstoðarmönnum og/eða riturum. Einnig er gott að segja honum frá því að starfsemin komi í heild sinni að málinu með ýmsum hætti. Það hjálpar viðskiptavininum að skilja hvernig kostnaður við þjónustuna verður til.

Talaðu um verð

Í lok fundar er gott að ræða um formsatriði svo sem verð og uppgjör. Segðu skýrt frá því hvernig er rukkað, hvað vinnan kosti og hvernig útlagður kostnaður sé innheimtur. Segðu frá því að viðskiptavinur geti á hverjum tíma fengið yfirlit yfir alla vinnu, gert athugasemdir við reikninga innan ákveðinna daga o.s.frv. Ekki láta neitt koma viðskiptavininum á óvart þegar kemur að því að greiða fyrir þjónustuna.

Vertu ófeimin/n við eigin taxta

Um leið og þú talar af óöryggi um uppsett verð eða býður strax afslætti ertu að segja að þjónustan sé ekki eins mikils virði og verðið gefur til kynna.

Áætlaðu heildarkostnað varlega

Það er freistandi að giska á hugsanlegan heildarkostnað við mál en um leið er slík ágiskun hættuleg. Ef málið dregst á langinn eða reynist umfangsmeira en upphaflega stóð til þá verður kostnaður mun hærri en þú áætlaðir. Við slíkar aðstæður gæti viðskiptavinurinn orðið ósáttur og talið verð of hátt.

Hér eru aðeins nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga. Meginreglan er að láta ekkert koma á óvart í viðskiptum. Verð má vera hátt ef það var öllum ljóst og allir átta sig á verðmæti þjónustunnar. Þitt verkefni er að útskýra hvað þú gerir og hvernig verðmætin verða til. Ef það tekst þá eru allir ánægðir.