Á að rukka fyrir upprifjun?
Lögmenn sem taka að sér margvísleg mál þurfa oft að taka nokkra klukkutíma í að rifja upp helstu sjónarmið, nýlega dóma í tilteknum málaflokki, lesa nýjar fræðigreinar á sviðinu og annað sem nauðsynlegt er að gera ef lögmaðurinn hefur ekki starfað á því sviði í nokkurn tíma.
Þá kemur upp sú spurning hvort það eigi að rukka viðskiptavini fyrir þá upprifjun? Ekki er til algilt svar við spurningunni en hér eru þau sjónarmið sem við höfum fengið fram í samtölum við okkar notendur.
Greining er hluti af verkefninu.
Allir lögmenn sem taka að sér mál þurfa að byrja á því að kanna nýjustu stefnur og strauma í málaflokknum. Skiptir þar engu hvort þeir starfi daglega í málaflokknum eða ekki. Það er á ábyrgð lögmannsins að vinna þessa frumvinnu í hverju máli. Því greiðir viðskiptavinur fyrir upprifjun.
Lögfræðingur á að vera sérfræðingur
Viðskiptavinurinn kemur til lögmanns af því að hann vill fela málið sérfræðingi til úrlausnar. Ef lögmaður þarf að rifja upp vegna málsins þá á viðskiptavinurinn ekki að bera þann kostnað. Tímagjald lögmanns er tímagjald sérfræðings.
Upprifjun eða sérfræðingur?
Á stærri stofum eru lögmenn oft með ákveðin sérsvið og fást nær alfarið við mál á því sviði. Þegar slík mál koma inn á stofuna fara þau til þeirra eða annarra sem þá ráðfæra sig við sérfræðingana. Sérfræðingar rukka hærra verð en almennir lögmenn og kemur viðskiptavinur því í sama stað niður hvort greitt er fyrir aðstoð sérfræðings eða upprifjun lögmanns.
Viðskiptavinurinn sé upplýstur
Venja er að segja honum frá því að fyrst verði farið yfir helstu sjónarmið, gerð athugun á nýlegum og sambærilegum málum sem hafa gengið og unnið uns skýr mynd er komin af málinu - og þar sé upprifjun fyrsta skrefið.
Eins og sjá má á ofangreindum punktum þá eru ólík sjónarmið um það hvort og hvenær eigi að rukka fyrir upprifjun. Líklega er ekki skýr lína á milli upprifjunar, greiningar og þess sem beinlínis er ætlast til að lögmaðurinn geri.
Niðurstaðan hjá öllum var að mestu skipti að viðskiptavinurinn væri meðvitaður um hvað sé verið að rukka fyrir, hvað verði gert í málinu og til hvers hvert skref í vinnunni sé tekið.